Mín saga
Ég er stolt mamma sem hef það fyrir ástríðu að hvetja samfélagið til að fagna fjölbreytileikanum. Ég óska jafnra tækifæra og aukinnar viðurkenningar fyrir ólíka persónuleika. Þessu vinn ég ótrauð að í gegnum fyrirlestra mína og verkefni.
Menntun mín samanstendur af B.Sc og M.Sc innan Stjórnun og Markaðsmála og í 12 ár vann ég innan þess geira bæði á Íslandi og í Noregi. Fyrir 11 árum síðan fékk barnið mitt einhverfugreiningu og þá snérist líf okkar á hvolf.
Fljótlega eftir greininguna sagði ég upp þáverandi starfi mínu og réð mig í 100% vinnu við að kynnast heimi einhverfunnar þar sem barnið mitt var minn mikilvægasti lærimeistari. Ég einsetti mér að skilja hvað lá á bak við öðruvísi viðbrögð (hegðun) og fylltist samkennd og virðingar yfir þeim áskorunum sem barnið mitt upplifði á degi hverjum. Ég upplifði einnig skilningsleysi, vanþekkingu og fordóma víða í samfélaginu og neisti kviknaði til þess að breyta opna umræðuna.
Ég opnaði formlega netsíðuna mína egerunik.is á afmælisdeginum mínum, 23.september 2015 með pompi og prakt. Vefsíða þessi var 2 ár í undirbúningi og gaf að líta verkfæri fyrir skynsegin einstaklinga til þess að búa til persónulegar bækur um hvernig hver og einn upplifir heiminn, til þess að hjálpa öðrum að skilja og minnka staðalímyndir um einhverfu og ADHD. Verkefni þetta var unnið í nánu samstarfi við Einhverfusamtökin og ADHD samtökin, ásamt hóp af skynsegin fólki sem gerði vefinn að því faglega verkfæri sem það var.
Ég er unik verkefnið vakti mikla athygli og í söfnun á Karolinafund lögðu 200 manns verkefninu lið og söfnuðust 11.220 evrur. Einnig fékk ég styrk frá Landsbankanum og Isavía fyrir mín störf. Verkefnið fékk viðurkenningu frá Einhverfusamtökunum og tilnefningu til Hvatningaverðlauna ÖBÍ. Rétt eftir opnun vefsins tók ég svo auðmjúk við Múrbrjót Landssamband Þroskaþjálfar vegna framlag í þágu margbreytileikans og jafnra tækifæra.
Samhliða opnun egerunik.is hóf ég að flytja fyrirlestra um mitt ferðalg sem móðir einhverfs barns. Þeir fyrirlestrar vöktu mikla athygli og hef ég talað til mörg þúsund manns á síðastliðnum 8 árum. Ég hélt áfram að dýpka skilning minn á skynjun, taugakerfinu, áföllum, samskiptum og tengslum og hóf árið 2020 að veita foreldrum og skólum samskiptaráðgjöf. Þar af starfaði ég í 1 ár hjá Tröppu sem samskiptaráðgjafi.
Vefsíðan til bókagerða lokaði í lok 2018 en áfram hélt fyrirlestrafjörið. Ég bjó til öðruvísi fræðsluefni um einhverfu sem í senn væri skemmtilegt, eftirminnilegt, fræðandi og myndi færa orðinu einhverfa þá virðingu sem það verðskuldar. .
Árið 2020 hóf ég svo vegferð mína hjá EQ Institute í Osló, þar sem ég skráði mig í 3 ára diplóma nám; EQ-terapeut. Á Íslandi vel ég að kalla mig Tilfinningaráðgjafa. EQ stendur fyrir tilfinningagreind (emotional intellligence) og fjallar um hæfni einstaklingsins til sjálfsvitundar, sjálfstjórnunar, félagsvitundar og tengslamyndunar.
I þessu einstaka og áhugaverða námi öðlaðist ég enn dýpri skilning á hvað sem liggur á bak við hegðun barna og fullorðinna og hvernig við getum hjálpað börnum sem miðla til okkar vanlíðan í gegnum erfiða hegðun. Úr varð nýr fyrirlestur sem byggir bæði á faglegri þekkingu sem og persónulegu ferðalagi mínu sem móður barns sem hefur upplifað miklar áskoranir.
Ég vel að kalla mig sendiherra fjölbreytileikans – ég brenn fyrir kærleiksríkara samfélagi þar sem allir sem vinna með börnum hafa þekkingu á hvað liggur á bak við hegðun og að við förum að mæta börnum á þann hátt sem ekki skerðir þeirra sjálfsmynd og býr til þrautsegju og lífsgleði. Áður hefur verið þörf en nú er nauðsyn að brjóta hringrás fordóma og uppeldisáfalla!
Með kærleika
Aðalheiður
Viltu fylgjast með?
Skráðu þig á póstlistann og fáðu upplýsingar um næstu fyrirlestra og námskeið